FFR er stéttarfélag flugmálastarfsmanna og starfa langflestir félagsmenn þess hjá Isavia ohf. en einnig eru allnokkrir félagsmenn okkar að störfum hjá Samgöngustofu. 
Allmörg starfsheiti er að finna meðal félagsmanna okkar en öll lúta störfin að hinum fjölbreyttu hliðum flugsins. 
Félagsmenn FFR eru meðal annars flugöryggisverðir, rafeindavirkjar, smiðir, flugfjarskiptamenn, flugvallareftirlitsmenn, skrifstofufólk, flugkortagerðarmenn, radíóeftirlitsmenn og kerfisstjórar svo eitthvað sé nefnt.

Það voru félagsmenn FFR sem hófu byggingu flugvalla út um allt land og einnig voru þeir að verki þegar fjarskiptastöðvar voru settar upp á heiðar.