Fréttir

Undanfarið hefur BSRB vakið athygli á þeim fjölbreyttu störfum sem félagsmenn bandalagsins sinna í almannaþjónustu. Mikið hefur mætt á starfsfólki almannaþjónustunnar síðustu ár þar sem verkefnum hefur fjölgað á sama tíma og starfsfólki hefur víða fækkað. Óhætt er að segja að þótt mjög hafi reynt á velferðarkerfi landsins á árunum eftir hrun hafi það staðist prófið og mildað það mikla högg sem margir urðu fyrir.

BSRB vill þess vegna minna á að án starfsfólks almannaþjónustunnar liti samfélag okkar allt öðruvísi út. Starfsfólk almannaþjónustunnar vinnur mikilvæg störf um land allt og er undirstaða þess samfélags sem við búum í. Opinberir starfsmenn veita okkur umönnun og hjúkrun, gæta öryggis okkar, mennta og gæta barnanna okkar og sinna allri grunnþjónustu samfélagsins. Öflug almannaþjónusta stuðlar öðru fremur að auknu jafnrétti, öryggi og réttlátara samfélagi.

Um leið er öll skerðing á opinberri þjónustu skerðing á lífsgæðum allra sem í landinu búa. BSRB minnir á að án vel mannaðrar opinberar þjónustu horfum við upp á gjörbreytt samfélag. Almannaþjónustan er grunnstoðin sem samfélagsgerð okkar hvílir á og það er hagur okkar allra að grunnstoðir samfélagsins séu sterkbyggðar.

Almannaþjónusta á samfélagslegum grunni þar sem allir eiga jafnan rétt, óháð efnahag, er ein helsta forsenda framfara. Styðjum við og verum erum stolt af því fólki sem þjónar okkur í fjölbreyttum störfum hjá hinum opinbera. Án þess starfsfólks væri samfélag okkar fátækara.

Það er kominn tími til að sækja fram til aukinnar velferðar og öryggis á Íslandi. BSRB hvetur bæði ríki og sveitarfélög til að leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB

 


Frestur til að sækja um verkfallsbætur fyrir félaga FFR er til miðnættis 14. desember n.k. Sótt er um á hnappi hér á heimasíðunni.

Persónuuppbót FFR félaga í desember 2014 er kr. 74.000.- Miðað við fullt starf á árinu. Annars er greitt hlutfallslega.

Ennfremur er unnið að því að ljúka greiðslum verkfallsbóta í fyrra hluta desembermánaðar.

FFR býður upp á hótelmiða í vetur á Fosshótein og Hótel Keflavík. Endilega kynnið ykkur á orlofssíðunni. Einnig er hægt að bóka helgar og staka daga í bústað félgsins í Munarnesi og íbúð á Akureyri sem og Heiðarbæ í Vestmannaeyjum.

 

Námskeiðsflóra haustsins er að venju fjölbreytt og flestir ættu að finna þar eitthvað fróðlegt sem nýtist í starfi. Hjá Starfsmennt er boðið upp á löng og stutt námskeið um allt land og búum til heilu stofnanaskólana í samstarfi við stjórnendur og starfsfólk.

Þjónustan miðar að því að gera vinnustaðinn betri með markvissri starfstengdri símenntun og ráðgjöf um eflingu mannauðs. Hér má sjá nýjustu auglýsingu  um hvaða starfshæfni áhersla er lögð á, með hvaða starfsgreinum unnið er og hvernig stofnanaskólar eru hannaðir.

Að venju er öll þjónusta félagsmönnum að kostnaðarlausu, oft í samstarfi við ýmissa fræðslu- og mannauðssjóði. Allar upplýsingar má finna á vef Starfsmenntar þar sem skráningar fara fram og svo svörum við fúslega öllum fyrirspurnum í síma 550-0060.

6c566c74e7f1036e5f5e5c965be7a10c

„Dapurlegt er að fylgjast með umræðu fulltrúa meirihluta fjárlaganefndar í kjölfar birtingar árshlutauppgjörs Fjársýslu ríkisins um fjárreiður ríkissjóðs. Áður en skýringa á meintum framúrkeyrslum tiltekinna stofnana er leitað hjá viðkomandi ráðuneytum er talið farið að berast að mögulegum breytingum á starfsmannalögum svo auðveldara verði að víkja fólki úr starfi til að refsa þeim. Einn þingmaður meirihlutans á þingi gekk svo langt að leggja til að forstöðumenn stofnana finni sér nýtt starf,“ segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB sem segir að umræðan hefði mátt vera yfirvegaðri enda hafi ekki verið nærri eins mikil ástæða til upphlaups þegar málið var skoðað betur.

„Þegar fjárlaganefnd hafði svo fyrir því að spyrjast frekar fyrir um meintar framúrkeyrslur fjárheimilda hafa í flestum tilfellum fengist eðlilegar skýringar á því hvers vegna tölurnar birtast með þeim hætti sem þær gera í þessu árshlutauppgjöri. Formaður fjárlaganefndar hefur í kjölfarið sagt að staðan sé því víða ekki eins slæm og árshlutauppgjörið segi til um. Það hefur samt ekki dregið úr þeim ofsa sem einkennt hefur umræður formannsins um störf opinberra starfsmanna og vilja hennar til að minnka starfsöryggi þeirra. Í málflutningi sínum hefur formaður fjárlaganefndar ítrekað gerst sek um alls kyns rangfærslur sem eiga ekki við nein rök að styðjast. Svo sem varðandi áminningarferli ríkisstarfsmanna auk þess að halda því fram að ríkisstarfsmenn séu æviráðnir og því sé ómögulegt að reka þá úr starfi. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar fram til þessa hafa heldur betur sýnt fram á annað og því veit formaður fjárlaganefndar, sem auk þess er löglærð, betur. Nema að hún sé vísvitandi að halda öðru fram en því sem hún veit til að afla stuðnings við tillögur sínar um að skerða réttindi opinberra starfsmanna, sem að mínum dómi væri talsvert alvarlegra en hreint þekkingarleysi,“ segir Elín Björg.

„Margar stofnanir hafa þurft að skera mikið niður á yfirstandandi fjárlaga ári og m.a. þurft að segja upp starfsfólki. Verkefnum þessarar stofnana hefur á sama tíma ekki fækkað og raunar hafa þau víða aukist. Starfsfólk hins opinbera – sem sinnir velferðarmálum, veitir heilbrigðis- og umönnunarþjónustu, sinnir öryggismálum o.s.frv. – hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf á síðustu árum á sama tíma og stöðugt hefur verið vegið að starfsheiðri þeirra. Þetta sama fólk hefur þrátt fyrir illt umtal, stöðugan niðurskurð og uppsagnir samstarfsmanna náð að sinna sínum verkefnum og gert það vel. Þetta starfsfólk á betur skilið en þessar köldu kveðjur.“