Kæru félagsmenn, þá er forúthlutun orlofshúsa FFR á Íslandi lokið fyrir sumarið og nú hafa menn frest í eina viku til að festa sér orlofshúsin með greiðslu. Endilega hugið að því svo að þið missið ekki af kostunum ykkar. Að þeim fresti loknum verður opnað fyrir leigu og fyrstur kemur fyrstur fær reglan tekur yfir. Um þessar mundir erum við að undirbúa húsin fyrir sumartímabilið og fjárfesta í endurnýjun húsgagna eins og þörf var á. Kominn er nýr svefnsófi bæði í Munaðarnes og á Akureyri. Einnig nýir borðstofustólar í Munaðarnes og eitthvað annað smálegt.
Enn er opið fyrir umsóknir í forúthlutun á íbúð félagsins á Tenerife fyrir sumarið og útlit eitthvað að glæðast með flugferðaúrval Íslendinga suður á bóginn á næstunni. Hægt verður að setja inn umsóknir fyrir forúthlutun út fimmtudaginn 11. apríl ef þið viljið besta möguleikann á því að krækja í dvöl í íbúðinni á sumarorlofstímanum. Við fengum myndir af íbúðinni í dag og það var ánægjulegt að sjá hversu vel framkvæmdir eru á veg komnar. Setjum nokkrar myndir með fyrir áhugasama!
Í desember síðastliðnum festi félagið kaup á íbúð á Costa Adeje svæðinu á Tenerife.
Íbúðin er 75,1 m2 að viðbættum 13,2 m2 svölum og 32 m2 stæði/geymslu í bílakjallara.
Svefnpláss er fyrir 6 fullorðna í tveimur svefnherbergjum og á stórum svefnsófa í stofu. Í íbúðinni eru tvö baðherbergi með sturtu og fullbúið eldhús. Ekkert gasgrill fylgir eigninni og þau eru ekki leyfð í íbúðakjarnanum. Tvær útisundlaugar eru í sameigninni.
Félagsmönnum er bent á að nú hefur verið opnað fyrir umsóknir um vikuleigu orlofshúsa félagsins sumarið 2019.
Til þess að sækja um vikudvöl í orlofshúsi félagsins skrá félagsmenn sig inn á orlofsvef félagsins og velja flipann UMSÓKN SUMAR.
Hægt er að setja inn allt að 5 valmöguleika í umsókninni og er boðið upp á að leigja hús í Munaðarnesi, Vestmannaeyjum og íbúð á Akureyri.
Leigutími er mánudagur til mánudags.
Leiguverð er óbreytt 23.000 kr. fyrir vikuleigu, auk 24 punkta af punktainneign félagsmanns.
Umsóknarfrestur er til og með 3. apríl.
Aðalfundur Félags flugmálastarfsmanna ríkisins verður haldinn fimmtudaginn 14. mars kl. 18:00.
Fundurinn fer fram á Réttinum, Hafnargötu 90, 230 Reykjanesbæ. Næg bílastæði eru að aftan.
Dagskrá fundar:
1. Skýrsla stjórnar
2. Ársreikningar FFR 2018 lagðir fram til úrskurðar
3. Tveir félagslegir skoðunarmenn reikninga kjörnir og einn til vara
4. Félagsgjöld fyrir næsta starfsár ákveðin
5. Önnur mál
Boðið verður upp á léttar veitingar og eru félagsmenn hvattir til að fjölmenna!
Undirbúningsfundur með félagsmönnum vegna komandi kjaraviðræðna FFR við SA/Isavia verður haldinn á Réttinum í Keflavík þann 27. febrúar næstkomandi kl. 18:00 og ert þú kæri félagsmaður hvattur til þess að mæta.
Stjórn félagsins hefur þegar fundað með trúnaðarmönnum félagsins og rætt áherslur ykkar fyrir kröfugerðina og nú viljum við gefa öllum félagsmönnum tækifæri til þess að hitta stjórn og samninganefnd félagsins áður en kröfugerðin sjálf lítur dagsins ljós.
Á fundinum verða ræddar áherslur FFR fyrir næstu kjarasamninga. Hafir þú einhverjar tillögur eða áherslur sem þú vilt koma á framfæri og ræða við samninganefndina er tilvalið að mæta á fundinn og láta ljós þitt skína.
Okkur er mikið í mun að ná til allra og fá ítarlegar upplýsingar frá öllum félagsmönnum. Hafir þú ekki tök á því að mæta á fundinn getur þú sent vinnufélaga með erindið eða falið þínum trúnaðarmanni að taka málið fyrir á fundinum. Við eigum að sjálfsögðu von á því að allir trúnaðarmenn okkar sitji fundinn.
Við höfum einnig nú þegar sent út rafræna könnun á hvern og einn félagsmann til þess að tryggja að rödd allra félagsmanna heyrist áður en samninganefnd sest við samningaborðið. Ert þú búinn að svara könnuninni?
Boðað er til fundar þann 27. febrúar kl. 18:00 á Réttinum, Hafnargötu 90 230 Reykjanesbæ, næg bílastæði eru að aftan og að venju verða flottar veitingar í boði!
Stjórn og samninganefnd FFR
Kæru félagsmenn,
Nú fer að líða að kjaraviðræðum og af því tilefni höfum við sent út skoðanakönnun til félagsmanna sem lýtur að launakjörum, aðstæðum á vinnumarkaði og líðan félagsmanna í starfi.
Einn heppinn þátttakandi verður dreginn út og fær 50.000 kr. gjafakort!
Markmiðið með könnuninni er að fá yfirsýn yfir áherslur félagsmanna í komandi kjaraviðræðum og er mikilvægt að svörun við könnuninni verði góð til þess niðurstöður verði marktækar.
Ef þið hafið ekki fengið póst á ykkar persónulegu netföng er mögulegt að hann hafi verið sendur á vinnunetfangið.
Endilega hafið samband á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. ef upp koma vandamál.